Rafmagnsleysi, olíuskortur og gular viðvaranir

Undanfarið árið hef ég verið að mentora ungan mann sem býr í Freetown, Sierra Leone. Chernor er frábær ungur maður sem hefur stofnað skóla í einu af fátækustu hverfum borgarinnar. Markmið skólans er að veita nærsamfélaginu aðgang að tölvum og internetinu, kenna grundvallarþekkingu í notkun á tölvum og á helstu forritin, þannig ætlar hann að stuðla að bættum atvinnumöguleikum fólksins.

Í þetta ár höfum við haft nánast vikulega fundi þar sem við ræðum helstu áskoranirnar sem hann stendur frammi fyrir, og ég reyni eftir fremsta megni að veita honum stuðning. Þetta felur meðal annars í sér að lesa yfir skýrslur til UNDP, að hjálpa við tilboð, fjárhagsáætlanir, framtíðarsýn, ráðningu, auglýsingaherferðir, starfsmannamál og fleira.

Í gegnum árin hef ég heimsótt Sierra Leone samtals fimm sinnum, og hver heimsókn hefur verið einstök, óvenjuleg og eftirminnileg. Ég hef fengið að upplifa marga undraheima landsins, en þær heimsóknir hafa einnig verið á frekar mjúkan hátt, þar sem mér hefur verið ekið um í bíl, ég hef sofið í loftkældu herbergi, og haft aðgang að baðherbergi, rennandi vatni og rafmagni.

Síðan ég kynntist Chernor hef ég fengið stórt „reality check“ á því hvernig er að lifa í Freetown. Til dæmis frá því í febrúar hefur lítið sem ekkert rafmagn verið í borginni. Einn daginn fór Chernor út í búð og keypti nokkra tugi metra af rafmagnskapli, hann hafði frétt af því að það væri hægt að fá rafmagn á öðru „griddi“ sem hann ætlaði að reyna tengja sig inná.

Chernor á lítinn díselknúinn rafal og hefur stundum getað bjargað sér með honum. Hinsvegar kostar olían hálfan handlegg og núna er hún víst af skornum skammti, aðeins hægt að fá 2 lítra ef maður á mótorhjól og 5 lítra ef maður á bíl.

Við höfum verið að leita leiða til að fjármagna og setja upp sólarrafhlöður og geyma en það er hægara sagt en gert og mjög kostnaðarsamt.

Mikið er ég þakklát fyrir að búa hér þrátt fyrir gular viðvaranir og allt hitt!

Previous
Previous

Góðar fréttir frá freetown!